Kafað í djúpið – baritónar og bassar |
Skrifað af Administrator | |
Tuesday, 24 January 2006 | |
Hugleiðingar um djúpar karlmannsraddir eftir HALLDÓR HANSEN
Tito Gobbi, listamaður með meiru! Eins og við þekkjum baritónröddina í dag er hún fyrirbæri, sem festi sig í sessi á tímum Rossinis, ekki ólíkt og tenórröddin. Með baritónröddinni er átt við hljómmikla og dimma karlmannsrödd, sem getur engu að síður breitt úr sér í hæðinni og sungið allt upp á G eða A fyrir neðan háa C-ið. Fyrir tíma Rossinis eins og t.d. á tímum Mozarts var sjaldnast ætlast til að dökk karlmannsrödd fengist við að syngja hærra en upp á F. Sú rödd sem það gerði gat því allt eins verið það sem í dag er kallað bassbaritón. Hún liggur mitt á milli þess að vera baritón og bassi; er dekkri að lit en hreinn baritón og heldur lægri, en vantar samt alla neðstu tóna hinnar eiginlegu bassaraddar samkvæmt skilgreiningu nútímans. Líkt og tenórröddin hefur baritónröddum verið skipt niður í flokka eftir eiginleikum raddarinnar. Hinn lýríski barítón er oftast létt rödd og tiltölulega björt miðað við dramatísku barítónröddina, sem er miklu fyllri og kraftmeiri. Á þýskri tungu er gjarnan talað um Spielbariton, Kavalier bariton og Heldenbariton Lýrískur baritón (Spielbariton)Hér er Gino Quilico sem Enrico í Lucìu:
Önnur dæmi: Bergþór P., Matthias Görne, Dietrich Fischer-Dieskau, Gérard Souzay, Robert Merrill. Lýrískur baritón er létt og tiltölulega björt af dökkri rödd að vera. í Frakklandi er talað um afbrigði af mjög léttri baritonrödd, sem kallast „baryton martin” og liggur á mörkum tenórs og baritón. Hún hefur venjulega mikinn tenórblæ í hæðinni. Hlutverk fyrir léttustu tegund af baritónröddum á óperusviðinu eru heldur fá og hin eiginlegu heimkynni þessarar raddgerðar eru ljóðasöngurinn. Þar nýtur hún sín best. Dramatískur baritón Erfitt er að flokka þessa kappa, Tom, Dmitrí, Bryn og Rodney, því að þeir virðast geta hoppað í hvaða baritónhlutverk sem er: Thomas Hampson frá Indiana, sem sumir baritónar eru hálffúlir út í, síðan hann tók háa c-ið í lok Fígaró aríunnar úr Rakaranum með glæsibrag. En honum virðast allir vegir færir og Posa í Don Carlo er eitt af hans stjörnuhlutverkum:
Dmitrí Hvorostovskí, tígurinn frá Síberíu (stundum kallaður „barihunk“), einn sá heitasti allt frá því hann vann óperuhluta Cardiff heimssöngvarakeppninnar árið 1989:
Bryn Terfel, velska náttúruundrið, sem allir elska, vann ljóðahluta Cardiff keppninnar sama ár:
Hinn bandaríski Rodney Gilfry er afburða söngvari og gefur ekkert eftir í keppninni um „the sexiest baritone“
Fleiri góðir: Ólafur Kjartan, Ágúst Ólafsson, Justino Diaz, Thomas Allen, Jorma Hynninen, Sherrill Milnes, Renato Bruson, Piero Cappuccilli, Tito Gobbi, Tom Krause Dramatískur baritón er miklu fyllri og kraftmeiri en sá lýríski. Þyngri baritónraddir með góða hæð fá ógrynni af hlutverkum í óperum. Þá er baritóninn gjarnan ættmenni einhverrar hetjunnar; ýmist faðir eða bróðir, stundum líka trúfastur vinur. Oft og einatt er hann þó illmenni eða alla vega vafasamur að innræti. Baritóninn er sjaldnast elskhugi í sama skilningi og tenórsöngvarinn, en brennur oft af vonlausri ást til kvenhetjunnar, sem langoftast vill ekkert með hann hafa og kýs fremur dauðann en að gefast honum á vald. Stundum snýst meira að segja dæmið við, þannig að kvenhetjan ræður baritóninn af dögum, oftast í sjálfsvörn. Á óperusviðinu er baritóninn þannig gjarnan sá sem síst á upp á pallborðið í mannlegum samskiptum og allra minnst tu þar sem mestu máli skiptir. Einstaka sinnum er þó baritón-söngvarinn í glaðværu hlutverki („Spielbariton”) eins og t.d. Papageno í Töfraflautunni eða Figaró í Brúðkaupi Figarós eftir Mozart og Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini. Oftar er hlutskipti hans þó dapurlegra og á óperusviðinu á hann sjaldnast óskipta samúð áheyrenda. En líkt og sagt var um dramatískar mezzosópranraddir, þá er baritónhlutverkið oft sá öxull í óperum, sem dramað snýst um og er hann því oft örlagavaldur fyrir sjálfan sig og aðra á óperusviðinu. Heldenbariton José van Dam, frá Brussel hefur óviðjafnanlega mjúkan, en stóran hljóm:
James Morris, dúndrandi bass-baritóninn frá Baltimore, með Scarpia, Jagó, Filippus í Don Carlos og Wagner fagið, m.a. Hollendinginn, á efnisskránni:
Aðrir góðir: Einar Th. Guðmundsson, John Relyea, Hans Hotter, George London, Thomas Stewart, Donald McIntyre. Heldenbaritón eða hinn raunverulegi hetjubaritón er kraftmesta baritónröddin og venjulega sú dekksta. Heimkynni hennar eru venjulega óperur af þýska skólanum, einkum óperur Richards Wagner, sem krefjast oft allt að yfirmannnlegs raddmagns, en sjaldnast mikillar hæðar. Þetta er því rödd sem nálgast mjög svo eðli bassaraddarinnar, en hefur þó örlítið meiri hæð og ef til vill nokkuð bjartari lit.
Fyrir baritón eða bassa? Í óperum sem samdar voru í lok 18. aldar og í upphafi þeirrar 19. er oft talsvert á reiki hvort hlutverk fyrir dökkar karlaraddir henti betur baritón eða bassaröddum, enda var í rauninni ekki farið að greina á milli þessara tveggja raddgerða á þeim tíma. Dökkar karlmannsraddir voru einfaldlega kallaðar „bassaraddir” og það ekki skilgreint nánar. Eitt frægasta dæmið um þetta er hlutverk Don Giovannis í óperu Mozarts, sem nútíma bassasöngvarar hafa oft tekið að sér og ekki gert síður góð skil en baritónsöngvarar. Um þetta eru líka til dæmi frá síðari tímum. Hlutverk Escamillos í óperunni Carmen eftir Bizet krefst mikillar glæsimennsku af söngvaranum jafnt í söng sem leik og útliti, en liggur eiginlega of lágt fyrir hinn dæmigerða baritónsöngvara og of hátt fyrir bassasöngvara. Því er vandfundinn sá söngvari sem getur gert þessu hlutverki góð skil.
Bassaröddin Bassaröddin er tiltölulega sjaldgæf, en hún er dýpsta karlmannsröddin. Yfirleitt er þetta virðuleg og tignarleg rödd, sem hentar vel til að túlka göfugmennsku í fari fyrirmenna andlegum eða veraldlegum efnum á óperusviðinu. Hinn dökki hljómur er samt oft notaður til að túlka hið gagnstæða eða vald fúlmennsku og myrkraafla í tilverunni; jafnvel persónu sjálfs myrkrahöfðingjans, því „margt býr í djúpinu”. ,,Basso cantate” – „basso profondo” Þjóðverjinn René Pape, rúmlega fertugur, á blússandi ferð um helstu óperusvið heimsins:
Matti Salminen frá Turku, árstraumur hljóms og fagnaðar:
Helgiblær er yfir rödd Kurts Moll, allt frá Sarastró yfir í Gurnemanz:
Fleiri góðir: Guðjón Óskars, Viðar Gunnars, John Tomlinson, Martti Talvela, Ruggiero Raimondi, Nicolai Gjároff, Boris Kristoff, Fjodor Sjaljapín. Það er í sjálfu sér ekki hefðbundið að tala um lýrískar eða dramatískar bassaraddir á sama hátt og gert er um aðrar raddgerðir. Raddstyrkur og raddmagn söngvara getur verið mjög mismunandi enda þótt raddliturinn sé oft nokkuð svipaður og tiltölulega einhæfur miðað við aðrar raddir. Ítalir tala þó um „basso cantate” þegar röddin er tiltölulega létt og flauelsmjúk, en slíkri rödd lætur best að syngja langar, órofnar laglínur. Kraftmeiri og voldugri bassaröddum, „basso profondo”, lætur betur að þruma einstök orð og texta af munni fram fremur en að móta fagrar laglínur og binda tóna. Sá söngmáti er algengastur í þýskum óperum og þá sérlega í óperum Richards Wagner. „Basso buffo” Walter Berry, óviðjafnanlegur í buffo hlutverkum:
Enzo Dara, einn af þeim sem þarf ekki nema að birtast, þá fer maður að brosa:
Bjarni Thor Kristinsson, sem fer með hlutverk Osmins í Brottnáminu í haust í ÍÓ, þó að hann sé líka cantante. Stundum venda bassasöngvarar kvæði sínu í kross og taka að sér gamanhlutverk, en þau eru nokkuð algeng bæði í þýskum og ítölskum óperum. Sum þeirra hafa alvarlegan undirtón, en önnur hrein gamanhlutverk. Hin svokallaða „basso buffo” rödd hefur verið vinsælt fyrirbæri allt frá dögum Mozarts og jafnvel enn fyrr. Mörg tónskáld hafa gert sér mat úr þessari rödd, jafnvel til að lífga upp á óperur, sem ella hefðu orðið yfir sig alvarlegar og þunglamalegar. Oft er „basso buffo” röddin notuð sem burðarás í hreinum gamanóperum og njóta margar þeirra óhemju vinsælda, sérlega þegar leikur, söngur og útlit söngvara eru þannig að allt hittir beint í mark. Oft er það meira að segja útlit söngvarans og kímnigáfa sem ræður úrslitum um það hvort hann teljist „basso buffo”, fremur en eðli raddarinnar sjálfrar, sem eins og áður sagði er oft nokkuð einlit frá náttúrunnar hendi og í sjálfu sér ekki frábrugðin þeirri sem hentar í dramatísk hlutverk “Kólóratúr bassi” Hinn fjölhæfi bandaríski bassasöngvari, Samuel Ramey:
Aðrir: Kristinn Sigmundsson fer létt með kólóratúr (en hann var líka kosinn annar af tveimur bestu Sarastróum á hljómdiskum, frá upphafi!). Ef það er eitthvað sem er algjörlega andstætt eðli bassaraddarinnar frá náttúrunnar hendi þá er það léttleiki, sveigjanleiki og lipurð. Engu að síður hafa venið til bassasöngvarar, sem urðu frægir fyrir vald sitt yfir „flúrsöng”. Þeirra á meðal var ítalski bassasöngvarinn Laplache sem var uppi a 19. öld. A okkar tímum hefur gætt vaxandi áhuga á tónlist frá barokktímabilinu og jafnvel enn eldri tónlist. Þar með hafa kröfur aukist um færni í flúrsöng hver svo sem raddgerð söngvarans kann að vera frá náttúrunnar hendi. Óperur Handels eru t.d. vinsælar um þessar mundir, en flestar þeirra gera miskunnarlausar kröfur um færni í flúrsöng. Einn og einn bassasöngvari á okkar tímum hefur sýnt verulega hæfni á þessu sviði, t.d. bandaríski bassasöngvarinn Samuel Ramey, sem hefur þótt skara fram úr að þessu leyti.
Rödd-útlit-leikur Ef á heildina er litið má segja að mannsröddinni hafi tekist að svara öllum kröfum sem framþróun tónlistarinnar hefur gert til þessa hljóðfæris. Fyrr á tímum voru það einungis söngvarar með frábærar náttúruraddir, sem gátu gert sér vonir um að fá tilhlýðilega menntun í söng og komast áfram sem atvinnusöngvarar. Nú á tímum getur næstum hver sem hefur laglega söngrödd komist í söngnám og lært að þroska þá möguleika sem röddin býr yfir. En eftir sem áður eru fáir útvaldir og í dag verður sérhver óperusöngvari einnig að uppfylla kröfur um leikhæfileika og útlit, ekki síst eftir að óperur á myndböndum og í kvikmyndum fóru að verða daglegt brauð. Á leiksviðinu er fjarlægð milli söngvara og áheyrenda oft mjög mikil. Engu að síður leyfa ve! raflýst leiksvið nútímans áheyrendum að sjá og fylgjast betur með því sem þar gerist en aðstæður leyfðu fyrir tíma rafmagnsins. Hið sjónræna hefur því farið að keppa harkalega við eyrað á óperusviðum nútímans og því eiga söngvarar með fagrar raddir en óhagstætt útlit mun erfiðara um vik en nokkru sinni fyrr. Það er því ekki nema von þótt margir spyrji hvort ýmsir af frægustu söngvurum fortíðarinnar hefðu átt nokkra möguleika nú á dögum. Hvað sem þessu líður, þá er víst að tíminn stendur aldrei kyrr. Söngvarar koma og fara rétt eins og aðrir dauðlegir menn. Um ókomna tíð munu þeir vafalaust halda áfram að reyna að mæta kröfum síns samtíma, hverjar sem þær kunna að vera – rétt eins og maðurinn hefur gert frá ómuna tíð á hreint öllum sviðum tilverunnar. Halldór Hansen (myndatextar og dæmi um söngvara BP) |
|
Síðast uppfært ( Friday, 07 December 2007 ) |